Haustið 2010

Doktorsverkefni við Háskóla Íslands

Harpa Helgadóttir, Sjúkraþjálfari, PhD í Líf- og læknavísindum. Sérfræðingur í greiningu og meðferð stoðkerfis (Manual Therapy)

Heiti rannsóknar:

Rannsókn á stöðugleikakerfi herðablaðs hjá sjúklingum með verki í hálshrygg: Mat á stöðu herðablaðs og kveikjumynstri stöðugleikavöðva herðablaðs hjá sjúklingum með hálsverki af óþekktum upprunar og eftir hálshnykk.

Birtar vísindagreinar:

Altered activity of the serratus anterior in patients with cervical disorders. Helgadottir H, Kristjansson E, Einarsson E, Karduna A, Jonsson H.  J Electromyogr Kinesiol, 2011:21;947-953

Altered alignment of the shoulder girdle and cervical spine in patients with insidious onset neck pain and whiplash associated disorders. Helgadottir H, Kristjansson E, Mottram S, Karduna A, Jonsson H.  J Appl Biomech, 2011:27(3);181-191

Altered scapular orientation during arm elevation in patients with insidious onset neck pain and whiplash associated disorder. Helgadottir H, Kristjansson E, Mottram S, Karduna A, Jonsson H.   J Orthop Sports Phys Ther, 2010:40(12);784-791

 

Ágrip:

Talið er að röskun á stöðugleikakerfi herðablaðs geti framkallað og viðhaldið vanstarfsemi í háls- og brjósthrygg með því að valda þrýstings-, snúnings- og skriðálagi á liðum og liðumbúnaði. Þar sem þessar truflanir eru taldar tengjast hálsverkjum og endurteknum hálsverkjaköstum, felur meðferð vegna hálsverkja hjá sjúkraþjálfara í sér mat á stöðu herðablaðs og starfsemi stöðugleikavöðva herðablaðsins með leiðréttingum þegar við á. Stöðugleikakerfi herðablaðsins hefur ekki verið rannsakað hjá sjúklingum með hálsverki og þess vegna byggjast meðferðarúrræði fyrir þessa sjúklinga á niðurstöðum rannsókna á sjúklingum með axlarverki. Meginmarkmið doktorsverkefnisins var að rannsaka stöðugleikakerfi herðablaðsins hjá sjúklingum með hálsverki og meta hvort að sjúklingar með hálsverki af óþekktum uppruna og sjúklingar með hálsverki eftir hálshnykk hafi mismunandi truflanir. Stöðugleikakerfi herðablaðs var rannsakað með því að athuga hvort til staðar væri annars vegar truflað mynstur á stöðu herðablaðs þegar handleggur er niður með hlið og hinsvegar hreyfimynstri þegar handlegg er lyft. Kveikjumynstur stöðugleikavöðva herðablaðsins; sjalvöðva og síðusagtennings, var einnig athugað þegar handlegg var lyft. Aukamarkmið rannsóknarinnar var mat á stöðu háls- og brjósthryggs hjá þessum sama hóp sjúklinga. Tilgátan var sú að sjúklingar með hálsverki hafi truflaða stöðu á herðablaði, háls- og brjósthrygg ásamt truflun á kveikjumynstri stöðug­leikavöðva herðablaðs. Sjúklingar með hálsverki af óþekktum uppruna hafi öðruvísi truflanir en sjúklingar með hálsverki eftir hálshnykk.

Staða herðablaðs, háls- og brjósthryggjar og kveikjumynstur sjalvöðva og síðusagtennings var metið með þrívíddargreini (Fastrak) og yfirborðs­vöðvarafrita hjá sjúklingum með hálsverki af óþekktum uppruna (n=22) og hálsverki eftir bílákeyrslu (n=27). Einkennalaus hópur var valin til samanburðar (n=23). Niðurstöður sýndu breytta stöðu herðablaðs, hálshryggs og truflað kveikjumynstur í stöðugleikavöðvum herðablaðs, hjá sjúklingum með hálsverki. Sjúklingar með hálsverki sýndu marktækt minnkaðan aftursnúning hægra viðbeins þegar handleggur var niður með hlið auk þess sem sjúklingar með hálsverki eftir bílákeyrslu sýndu minnkaðan uppsnúning vinstra herðablaðs þegar handleggur var niður með hlið miðað við samanburðarhópinn. Mismunur var á uppsnúningi viðbeins og framhalla herðablaðs á vinstri hlið milli sjúklinga með hálsverki af óþekktum uppruna og eftir bílákeyrslu. Niðurstöðurnar sýndu einnig marktæka seinkun á virkni síðusagtennings og minnkað horn milli höfuðkúpu og hálshryggs hjá sjúklingum með hálsverki. Engin munur var á stöðu brjósthryggs milli hópa.

Þessar niðurstöður benda til illa samhæfðrar vöðvavirkni sem minnkar gæði taugavöðvastjórnunar og raskar eðlilegum stöðugleika herðablaðs. Minnkað horn milli höfuðkúpu og hálshryggs hjá sjúklingum með hálsverki bendir til skertrar getu hálshryggs til þungaburðar sem getur meðal annars orsakast af truflaðri vöðvavirkni djúpra hálsbeygjuvöðva. Þessar breytingar á stöðug­leikakerfi herðablaðs og stöðu hálshryggjar geta verið mikilvægur þáttur í viðvaranleika og auknum einkennum hjá sjúklingum með hálsverki.